Færsluflokkur: Bloggar

Gerum strætó í Reykjavík ókeypis

NÝLEGA birtist í Morgunblaðinu grein þess efnis að farþegum Strætisvagna Akureyrar hefði fjölgað um 60 prósent eftir að fargjöld voru felld niður þar um síðastliðin áramót. Skiptar skoðanir hafa verið á nýju leiðakerfi Strætó BS á höfuðborgarsvæðinu og þó farþegafjöldi hafi vissulega aukist um nokkur prósent eftir þær breytingar kemst hann ekki nærri fjölgun farþega á Akureyri. Daglega keyra um höfuðborgarsvæðið ótal tómir strætisvagnar, staðreynd sem gengur í berhögg við þá hugmynd að almenningssamgöngur séu umhverfisvænar. Almenningssamgöngur verða ekki umhverfisvænar nema borgarar nýti sér þær og það gera þeir bersýnilega ekki í þeim mæli sem kerfið býður uppá. Nýleg hækkun fargjalds úr 250 krónum í 280 er svo sannarlega ekki hvetjandi fyrir almenning, og sú réttlæting hækkunarinnar að barna og unglingafargjald lækki skiptir litlu máli því börn og unglingar hafa yfirleitt ekki þann valkost að nýta sér einkabíl og eru að auki að mestu leyti upp á fjárhag foreldra sinna komin. Ef ætlunin er að ferðast stutt er ódýrara fyrir fjóra farþega að slá saman í leigubíl en að taka strætó, sem segir þó nokkuð um uppsprengt fargjald vagnanna. Hugarfarsbreyting er einnig nauðsynleg. Álit samfélagsins á strætisvögnum virðist iðulega vera það að strætó sé bara fyrir unglinga og gamalt fólk. Slíkan hroka og yfirlæti ætti að kveða í kútinn og fleygja því fyrir hamra.

Strætó BS hefur verið rekinn með taprekstri undanfarin ár og hafa skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu borgað undir þá tómu vagna sem hringsóla um borgina fram eftir kvöldum fáum til gagns.

Ef unnið væri að fordæmi Akureyringa á höfuðborgarsvæðinu eru allar líkur á því að það almannafé sem nýtt er til að reka strætisvagna kæmi skattgreiðendum í það minnsta að einhverju leyti til góða. Í heimi þar sem birt er hver hamfaraspáin á fætur annarri um afleiðingar gróðurhúsaáhrifa hefur aldrei verið mikilvægara að nýta sér almenningssamgöngur til þess að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Við búum í samfélagi þar sem flestir eru nógu efnaðir til þess að keyra einkabíl, en dag eftir dag keyra þúsundir bíla með bílstjóranum einum farþega sem óumflýjanlega leiðir til þess að umferð verður þyngri og lengri tíma tekur að komast á milli staða.

Sé strætó gerður ókeypis er hvatningin svo sannarlega til staðar, þó án þess að réttur manna til að aka bílum sínum sé skertur. Strætó á höfuðborgarsvæðinu er, eins og málið horfir nú við, deyjandi ferðamáti og sé ekki brugðist við með einhverjum ráðum bráðlega hlýtur þessi bullandi tapstarfsemi að verða lögð niður. Annað væri heimskuleg sóun á fjármunum. Ég legg því til að Reykvíkingar fái þann möguleika að ferðast frítt með strætó í það minnsta til athugunar í nokkra mánuði. Ef það gengur ekki verða örlög reykvískra strætisvagna að halda áfram sínu eilífa farþegalausa hringsóli þar til starfsemin verður lögð niður af augljósum ástæðum. Þá mun taka enn lengri tíma að komast milli staða sökum gífurlegrar umferðar sem er nú þegar byrjuð að sprengja af sér gatnakerfi borgarinnar.

Höfundur er ritstjóri Menntaskólablaðsins Verðandi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband